Góð byrjun hjá Valdísi

Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnukylfingur úr GL, lék vel á fyrsta hring ISPS Handa Women's Australian Open mótsins. Hún kom í hús á 72 höggum og er eftir daginn jöfn í 47. sæti.

Valdís byrjaði á fyrstu holu í dag og var ekki lengi að koma sér undir par, en hún fékk fugl strax á annari holu dagsins. Restina af fyrri níu holunum lék hún á tveimur höggum yfir pari, þar sem hún fékk tvo skolla á holum fjögur og sjö.

Síðari níu holurnar byrjaði Valdís frábærlega, en hún fékk þrjá fugla á fyrstu fjórum holunum og var því komin á tvö högg undir par. Hún var á tveimur höggum undir pari allt þar til á 17. holu, en þá fékk hún tvöfaldan skolla áður en að hún fékk par á lokaholunni. Hún lék því hringinn á parinu og er eftir daginn jöfn í 47. sæti, eins og áður kom fram.

Ólafía Þórunn er einnig á meðal keppenda. Hún hóf leik seint í gær og er því töluverður tími síðan hún lauk leik. Hún lék á 74 höggum og má lesa nánar um hringinn hennar hérna.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.