Glæsilegur fyrsti hringur hjá Þórði í Tékklandi

Þórður Rafn Gissurarson, atvinnukylfingur úr GR, fór af stað með látum á Austerlitz Classic mótinu sem fram fer á Pro Golf mótaröðinni þegar hann lék á fimm höggum undir pari á fyrsta hring. Þórður Rafn er meðal efstu manna en annar hringur mótsins fer fram í dag, þriðjudag.

Spilamennska Þórðar var virkilega stöðug á fyrsta hringnum en hann fékk fimm fugla og tapaði ekki höggi. Athygli vekur að hann fékk einungis fugla á par 4 holur á hringnum en náði ekki að nýta sér par 5 holurnar.

Eftir fyrsta hringinn er Þórður Rafn jafn í þriðja sæti en hann fer út klukkan 13:30 að staðartíma í dag.

Alls eru leiknir þrír hringir í mótinu og er niðurskurður eftir annan hringinn. 40 efstu kylfingarnir komast áfram.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is