Glæsileg byrjun hjá Aroni og Þórði á 1. stigs úrtökumótunum

Aron Snær Júlíusson, GKG, og Þórður Rafn Gissurarson, GR, hófu í dag leik á 1. stigs úrtökumótum fyrir Evrópumótaröðina í golfi. Íslensku kylfingarnir léku báðir undir pari og eru báðir í toppbaráttunni þegar fjölmargir kylfingar eiga eftir að ljúka leik á 1. hringnum.

Aron Snær lék fyrsta hringinn á 3 höggum undir pari eða 69 höggum. Aron Snær leikur í Þýskalandi á Fleesensee golfvellinum en þetta er í fyrsta skiptið sem hann keppir á úrtökumóti fyrir Evrópumótaröðina.

Þórður Rafn lék fyrsta hringinn á höggi undir pari eða 71 höggi. Þórður er í 7. sæti en hann keppir í Kelso í Skotlandi. Þórður Rafn leikur í 8. sinn á úrtökumóti fyrir Evrópumótaröðina.

Alls taka um 700 kylfingar þátt á 1. stiginu fyrir Evrópumótaröðina. Talið er að um 25% kylfinga komist áfram á 2. stigið og á enn eftir að koma í ljós hversu margir komast áfram á hverjum velli. Íslensku kylfingarnir eru þó báðir í góðri stöðu eftir fyrsta hringinn af alls fjórum.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu hjá Aroni.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu hjá Þórði.


Aron Snær Júlíusson.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is