Gísli Sveinbergsson í forystu eftir fyrsta hringinn á Opna breska áhugamannamótinu

Gísli Sveinbergsson, afrekskylfingur úr GK, fór á kostum á fyrsta hringnum á Opna breska áhugamannamótinu í golfi sem hófst í dag. Gísli lék fyrsta hringinn á 8 höggum undir pari og er í forystu þegar nokkrir kylfingar eiga eftir að ljúka leik.

Leikið er á tveimur golfvöllum í mótinu, þeim Royal St. Georges og Prince golfvöllunum í Kent. Gísli lék á Prince vellinum og fór af stað með látum. sex fuglar á fyrri níu holunum gerðu það að verkum að hann kláraði þær á 30 höggum eða sex höggum undir pari. Á seinni níu hélt hann svo áfram að sækja fugla og fékk fugl á 12. og 13. holu og paraði rest. Þar með kláraði hann hringinn á 64 höggum (-8).

Þegar fréttin er skrifuð er Gísli í forystu í mótinu á 8 höggum undir pari og með högg í forskot á næsta kylfing. Alls taka tæplega 300 kylfingar þátt í mótinu en auk Gísla leika liðsfélagar hans úr Keili, Rúnar Arnórsson og Henning Darri Þórðarson einnig með í mótinu.

Rúnar lék líkt og Gísli á Prince vellinum á fyrsta hring. Hann er enn úti á velli en eftir 15 holur er hann á þremur höggum yfir pari. Hann er jafn í 203. sæti. Henning Darri lék á Royal St. Georges golfvellinum sem spilaðist erfiðari í dag. Henning kom inn á höggi yfir pari og er jafn í 127. sæti.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Um mótið:

Opna breska áhugamannamótið fór fyrst fram árið 1885 á Royal Liverpool golfvellinum. Mótið í ár er númer 122 í röðinni og eru keppendurnir 288 talsins frá 40 löndum. Leikið er á Royal St. George's og Prince golfvöllunum í Kent.

Leikfyrirkomulag mótsins er með þeim hætti að fyrstu tvo dagana er leikinn höggleikur. Eftir það komast 64 efstu kylfingarnir áfram og leika holukeppni þar til einn kylfingur stendur uppi sem sigurvegari.

Sigurvegari mótsins fær þátttökurétt á Opna mótinu sem fer fram í sumar á Royal Birkdale golfvellinum. Þar að auki fær sigurvegarinn keppnisrétt á Masters mótinu og Opna bandaríska meistaramótinu á næsta ári. Fyrrum sigurvegarar í mótinu eru til að mynda Matteo Manassero, Sergio Garcia, Jose Maria Olazabal


Rúnar Arnórsson.


Henning Darri Þórðarson.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is