Gísli og Bjarki með á Royal Oaks Intercollegiate

Landsliðsmennirnir Gísli Sveinbergsson, GK, og Bjarki Pétursson, GB, hófu í gær leik á Royal Oaks Intercollegiate mótinu sem er hluti af bandaríska háskólagolfinu. Fresta þurfti leik vegna birtuskilyrða í gær en mótið klárast seinna í dag.

Bjarki byrjaði örlítið betur en Gísli og er jafn í 48. sæti í einstaklingskeppninni á 10 höggum yfir pari. Hann var á þremur höggum yfir pari eftir 15 holur á öðrum hring mótsins þegar fresta þurfti leik.

Gísli er samtals á 13 höggum yfir pari í mótinu og jafn í 60. sæti í einstaklingskeppninni. Líkt og Bjarki lék hann fyrsta hringinn á 77 höggum en var á 6 höggum yfir pari á öðrum hringnum eftir 15 holur.

Lið strákanna, Kent State, er í 9. sæti á 28 höggum yfir pari í liðakeppninni. Oklahoma State leiðir á 12 höggum undir pari.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is