Gísli í 6. sæti eftir fyrsta hringinn á St. Andrews

Þrír íslenskir kylfingar hófu í dag leik á St. Andrews Links Trophy mótinu sem fer fram í Skotlandi dagana 8.-10. júní. Margir af bestu áhugakylfingum heims eru meðal keppenda en til þess að komast inn í mótið þurftu keppendur að vera í topp-500 á heimslista áhugamanna.

Aron Snær Júlíusson, Bjarki Pétursson og Gísli Sveinbergsson komust inn í mótið en leikið var á New Course í dag.

Gísli byrjaði frábærlega í mótinu og er þessa stundina jafn í 6. sæti á 2 höggum undir pari. Gísli nýtti par 5 holurnar vel þar sem hann fékk 3 fugla. Þar að auki fékk hann fugl á 1. holu en fékk á móti tvo skolla. Hann er einungis tveimur höggum á eftir Englendingnum Olly Huggins sem er efstur.

Aron Snær er jafn í 49. sæti á höggi yfir pari, Bjarki er svo jafn í 117. sæti á 5 höggum yfir pari. 

St. Andrews Links Trophy hefur frá árinu 1989 verið eitt sterkasta unglingamót heims ár hvert. Frægir kylfingar á borð við Ernie Els, Lee Westwood, Trevor Immelman, Geoff Ogilvy, Padraig Harrington, Justin Rose og Rory McIlroy tóku allir þátt í mótinu áður en þeir urðu atvinnukylfingar.

Annar hringur mótsins fer fram á laugardaginn og að lokum verða leiknar 36 holur á sunnudaginn. Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.


Aron Snær Júlíusson.


Bjarki Pétursson.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is