Gísli bestur á Opna breska áhugamannamótinu

Þrír íslenskir kylfingar hófu í dag leik á Opna breska áhugamannamótinu en mótið er eitt sterkasta áhugamannamót heims. Kylfingarnir eru þeir Aron Snær Júlíusson, GKG, Bjarki Pétursson, GB, og Gísli Sveinbergsson, GK. Leikið er á tveimur völlum. Annars vegar er leikið á Royal Aberdeen vellinum sem er jafnframt aðal völlur mótsins og Murcar Links vellinum. Okkar menn léku allir á Murcar Links vellinum.

Af þeim þremur lék Gísli best. Hann lék hringinn sinn í dag á 75 höggum, eða fimm höggum yfir pari. Á hringnum fékk Gísli þrjá fugla, sex skolla, einn skramba og restina pör. Eftir daginn er Gísli jafn í 99. sæti.

Bjarki lék nokkuð stöðugt golf í dag. Hann var til að mynda á parinu eftir níu holur með einn fugl og einn skolla. Á síðari níu holunum lenti Bjarki í því að fá fjórfaldan skolla en hann lék par 4 holu á átta höggum. Ofan á það fékk hann tvo skolla til viðbótar og endaði hann því hringinn á 76 höggum, eða sex höggum yfir pari. Hann er eftir daginn jafn í 116. sæti.

Aron var líkt og Bjarki á parinu eftir níu holur. Hann fékk einn örn, þrjá fugla, einn skolla, tvo skramba og aðeins tvö pör á þeim holum. Á síðari níu holunum lenti hann í miklum hremmingum og lék hann 10. holuna á níu höggum. Hann fékk svo tvo skramba og einn fugl til viðbótar og lauk því leik á 78 höggum, eða átta höggum yfir pari. Eftir daginn er hann jafn í 187. sæti.

Þeir munu allir leika á Royal Aberdeen vellinum á morgun og þurfa þeir á góðum hring að halda ætli þeir sér áfram en 64 efstu kylfingarnir komast áfram í holukeppnina.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.