Gísli bætti vallarmet sem Paul Dunne átti

Eins og greint var frá fyrr í dag er Gísli Sveinbergsson í forystu eftir fyrsta hring á Opna breska áhugamannamótinu eftir að hafa spilað á 64 höggum, eða átta höggum undir pari. Nú hefur verið staðfest að hringurinn hjá Gísla var vallarmet, sem var í eigu Paul Dunne, en Dunne spilaði á 65 höggum árið 2013. 

Lesa má nánar um hringinn hans Gísla hérna.

Í viðtali eftir hringinn sagði Gísli að góð byrjun hefði verið lykillinn að góðum hring, en hann fékk fugla á fyrstu tvær holurnar.

„Ég spilaði vel í dag. Mér leið mjög vel í dag og er spenntur fyrir morgundeginum. Ég byrjaði vel og eftir það kom þetta bara til mín. Þegar það gengur svona vel þá tekur maður ekkert eftir því, þetta gerist bara."

Á morgun mun Gísli leika á Royal St. George's vellinum, en það er þar sem holukeppnin mun fara fram að loknum 36 holu höggleik. 

„Royal St. George's er krefjandi, ekki auðveldur völlur. Þannig að ég þarf að vera þolinmóður og rólegur. Það getur allt gerst á morgun. Ég þarf bara að spila minn leik og komast áfram."

Gísli sagði einnig að það væri mjög gaman að hafa bætt met Paul Dunne, því Dunne hefur náð góðum árangri sem atvinnukylfingur.

„Alltaf gaman að bæta vallarmet. Dunne er frábær spilari og vonandi get ég náð jafn góðum árangri í framtíðinni og hann ."