Gauti Grétars kennir of stífum lyftingum um slakan árangur McIlroy á flötunum

Sjúkraþjálfarinn og kylfingurinn Gauti Grétarsson, NK, er nýjasti viðmælandi Snorra Björns í The Snorri Björns Show en þar miðlar hann reynslu sinni úr löngum ferli sem sjúkraþjálfari.

Gauti, sem hefur meðal annars starfað fyrir Golfsambands Íslands, talaði til að mynda um samhæfingu íþróttafólks og minntist þá á einn besta kylfing heims, Rory Mcilroy. 

McIlroy situr í dag í 7. sæti heimslistans en hann hefur einungis sigrað á einu móti undanfarin tvö ár sem telst ekki gott á hans mælikvarða. Oftar en ekki hafa það verið púttin sem hafa svikið hann.

Gauti vill meina að stífar lyftingar McIlroy sé ástæða þess að Norður-Írinn hafi ekki púttað nógu vel undanfarin ár.

„Við sjáum bara sem dæmi Rory McIlroy,“ sagði Gauti. „Hann er búinn að missa svaka mikið af fínhreyfingum af því að hann er búinn að lyfta of mikið sem gerir það að verkum að hann púttar ekki eins vel og hann gerði. Hann er búinn að missa fullt af svona hlutum í sinni grein og þetta sjáum við líka í mörgum öðrum íþróttum að með því að fara of mikið í kraftþjálfun þá eru menn að missa fínhreyfingar.“

Hlaðvarp Snorra Björns má sjá í heild sinni hér fyrir neðan. Stutt umræða um Rory McIlroy hefst eftir um það bil 1:10 klst.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is