Gary Woodland fór best af stað á PGA meistaramótinu

Fjórða og síðasta risamót ársins, PGA meistaramótið fór af stað í gær og er það Bandaríkjamaðurinn Gary Woodland sem er í forystu eftir fyrsta hring. Woodland er einu höggi á undan samlanda sínum Rickie Fowler.

Eftir fremur rólegar fyrri níu holur, þar sem hann lék á einu höggi undir pari, skipti Woodland heldur betur um gír á þeim síðari. Hann fékk hvern fuglinn á fætur öðrum og lék síðari níu holurnar á 30 höggum eða fimm höggum undir pari. Woodland endaði því á 64 höggum eða sex höggum undir pari.

Líkt og Woodland lék Rickie Fowler töluvert betur á sínum síðari níu holum. Eftir að hafa leikið fyrri níu holurnar á einu höggi undir pari kom hann í hús á fjórum höggum undir á þeim síðari og því samtals á fimm höggum undir pari.

Brandon Stone og Zach Johnson eru síðan jafnir í þriðja sæti á fjórum höggum undir pari.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.