Gamli Íslandsmeistarinn náði öðru draumahöggi

-Gylfi Kristinsson fór holu í höggi í vinnunni á Spáni

Íslandsmeistarinn í golfi 1983, Gylfi Kristinsson, tók nýjan áfangastað VITAgolf með trompi þegar hann fór holu í höggi á La Finca golfvellinum á Spáni nýlega. Gylfi er fararstjóri á þessum nýja stað sem hefur fengið mjög góð viðbrögð enda aðstæður allar hinar bestu.

Gamli Íslandsmeistarinn var í golfstígvélum þegar hann tryggði sér titilinn í Grafarholti árið 1983. Hann var ekki í stígvélum þegar hann náði draumahögginu í annað sinn á ferlinum en hann náði því fyrra fyrir tíu árum síðan, einnig þegar hann var fararstjóri hjá VITAgolf í Tyrklandi.

Suðurnesjamaðurinn var auðvitað í skýjunum með draumahöggið sem hann náði á 3. braut sem er tæplega 150 metrar að lengd. „Ég fór upp á teig og fjarlægðamælirinn sýndi 149 metra en ég var ekki nógu viss hvað ég ætti að nota og fór því með 7 og 8-járn upp á teig. Eftir smá umhugsun tók ég áttuna. Ég hitt boltann mjög vel, fékk smá drag í höggið og boltinn lenti á flötinni, tók eitt hopp og rúllaði síðan í holu,“ sagði kappinn alsæll.

Með honum í ráshópi voru þau Hlynur Freyr Birgisson, Stefanía Arnasdóttir og Sigmar Hlynur Sigurðsson. Síðan var ráshópurinn á undan ekki langt undan og varð vitni að högginu sem Gylfi segir mikinn létti því margir vina hans heima á klakanum hafi efast um að hann hafi aftur náði draumahögginu - í vinnunni á Spáni!

Gylfi segir La Finca svæðið mjög skemmtilegt, hótelið sé 5 stjörnu og glæsilegt og þá sé völlurinn einnig mjög góður og talinn vera einn sá besti á Costa Blanca svæðinu. Í ferðum VITAgolf til La Finca er einnig leikið golf á Las Ramblas og á Villamartin. Fyrrnefndi völlurinn er gamalgróinn og þekktur en þar hefur verið verið leikið golf frá 1973. Las Ramblas er í hæðóttu landslagi með stórum flötum. „Það er gott að spila tvo aðra velli í vikuferð á La Finca og kylfingar sem hafa komið hafa verið mjög ánægðir með golfvellina og hótelið,“ sagði Gylfi.