Gamla höggið: Tway stelur sigrinum af Greg Norman

Gamla höggið verður fastur liður hjá Kylfingi í vetur en vikulega koma inn myndbönd af eftirminnilegustu höggum golfsögunnar. 

Árið 1986 var ótrúlegt ár í sögu risamótanna. Ástralanum Greg Norman tókst að leiða öll fjögur risamótin fyrir lokahringinn en náði þó einungis að sigra á Opna mótinu.

Síðasta risamótið, PGA meistaramótið, fór fram á Inverness golfvellinum í Ohio. Norman var með 4 högga forystu fyrir lokahringinn á Bandaríkjamanninn Bob Tway.

Eftir 9 holur á lokahringnum var staðan eins, Norman var með 4 högga forystu á Tway og lítið sem benti til annars en að Norman færi með sigur af hólmi. Norman fékk hins vegar tvöfaldan skolla á 11. holu og skolla á 14. holu og voru þeir þá orðnir jafnir þegar fjórar holur lifðu leiks.

Fyrir 18. holuna voru Tway og Norman enn jafnir þegar Tway missti innáhöggið sitt í glompu við flötina á sama tíma og Norman sló í grínkant. Tway sló þá eitt eftirminnilegasta högg í sögu PGA meistaramótsins og setti vippið beint í holu. Þar með var sigurinn í höfn en Norman mistókst að setja sitt vipp í holu.

Sjá einnig:

Gamla höggið: Þegar Woods benti boltanum á holuna

Ísak Jasonarson
isak@vf.is