Gamla höggið: Þegar Woods benti boltanum á holuna

Gamla höggið verður fastur liður hjá Kylfingi í vetur en vikulega koma inn myndbönd af eftirminnilegustu höggum golfsögunnar. Að þessu sinni förum við aftur til ársins 2000.

Tiger Woods hefur á sínum ferli slegið mörg frábær högg og þá sérstaklega þegar pressan hefur verið hvað mest.

Á PGA meistaramótinu árið 2000 háði Woods ótrúlega baráttu gegn lítt þekktum bandarískum kylfingi, Bob May. Að 72 holum loknum voru kylfingarnir jafnir og því þurftu þeir að fara í umspil um sigur.

Á fyrstu holu umspilsins átti Woods eitt af sínum eftirminnilegustu golfhöggum. May hafði tryggt sér par á holuna eftir magnað vipp og Woods átti um 7 metra pútt eftir fyrir fugli. Woods setti púttið niður en það sem gerði það enn skemmtilegra var hvernig hann benti boltanum á holuna.

Svo fór að lokum að Woods hafði betur í umspilinu eftir að hafa leikið næstu tvær holur á parinu.

Umspilið í heild sinni er hér fyrir neðan en myndband af púttinu umrædda kemur eftir rúmlega eina og hálfa mínútu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is