Gamla höggið: Lokaði augunum og sló í boltann

Gamla höggið hefur verið fastur liður hjá Kylfingi í vetur en vikulega koma inn myndbönd af nokkrum af eftirminnilegustu höggum golfsögunnar. 

Spánverjinn Sergio Garcia skaust fram á sjónarsviðið árið 1999 þegar hann var nálægt því að stela sigrinum á PGA meistaramótinu eftir harða baráttu gegn engum öðrum en Tiger Woods. 

Á 16. holunni á lokahringnum var Garcia alveg upp við tré og útlitið ekki gott. Hann þurfti að slá boltann í mikinn sveig til hægri til þess að ná boltanum inn á flöt og þá var boltinn það nálægt trénu að Garcia lokaði augunum þegar hann sló höggið.

Garcia minnkaði forskot Woods niður í eitt högg á þessari holu en þannig endaði mótið og fagnaði Woods því öðrum risatitli sínum.

Eftir mótið var því spáð að þetta væri einungis byrjunin á mikilli samkeppni þeirra á milli en Garcia náði hins vegar ekki að sigra á risamóti fyrr en á Masters mótinu í apríl á síðasta ári. Á sama tíma hefur Woods sigrað á 14 risamótum á sínum magnaða ferli.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is