Fyrsti sigur Willett frá því á Masters

Englendingurinn Danny Willett sigraði í dag á lokamóti Evrópumótaraðarinnar sem fór fram í Dubai dagana 15.-18. nóvember.

Willett hafði betur gegn Patrick Reed á lokahringnum en þeir voru saman í lokahollinu. Willett endaði á 18 höggum undir pari og varð að lokum tveimur höggum á undan þeim Reed og Matt Wallace.

Þetta er fyrsti sigur Willett frá því árið 2016 þegar hann sigraði á Masters mótinu. Hann hefur gengið í gegnum erfiða tíma á golfvellinum síðan þá og talaði hann um í viðtali eftir mót að þetta hafi verið kærkominn sigur.

Sigrar Willett á Evrópumótaröðinni: 

2012: BMW International Open
2014: Nedbank Golf Challenge
2015: Omega European Masters
2016: Omega Dubai Desert Classic
2016: Masters
2018: DP World Tour Championship

Francesco Molinari varð stigameistari á Evrópumótaröðinni eftir frábært tímabil. Molinari endaði í 26. sæti í lokamótinu en Fleetwood, sem þurfti sigur til að komast í efsta sæti sitgalistans, endaði í 16. sæti.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is