Frittelli kominn upp í 55. sæti heimslistans eftir frábært ár

Suður-Afríkubúinn Dylan Frittelli hefur slegið í gegn á Evrópumótaröðinni á þessu ári. Hann er nú mættur í heimaland sitt þar sem Joburg Open mótið fer fram og ætlar hann sér stóra hluti.

Frittelli öðlaðist keppnisrétt á Evrópumótaröðinni fyrir rúmu ári síðan og hefur hann nú sigrað á tveimur mótum og er kominn upp í 55. sæti heimslistans.

Í byrjun árs var Frittelli 152. sæti heimslistans og samt sem áður búinn að fara hátt upp listann þökk sé góðum árangri á Áskorendamótaröðinni undanfarin ár.

Í júní sigraði hann á Lyoness Open mótinu og þar með var keppnisréttur á Evrópumótaröðinni tryggður. Hann átti svo eftir að enda í öðru sæti á Turkish Airlines mótinu í nóvember og 4. sæti í DP World Tour Championship mótinu áður en hann sigraði á AfrAsia Bank mótinu sem fór fram um síðustu helgi.

Frittelli er eins og fyrr segir meðal keppenda á Joburg Open sem hefst á fimmtudaginn en þar mun Birgir Leifur Hafþórsson einnig mæta til leiks og keppa við marga af bestu kylfingum mótaraðarinnar.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is