Frittelli fagnaði sigri eftir bráðabana í Máritíus

Suður-Afríkubúinn Dylan Frittelli sigraði í dag á AfrAsia Open mótinu sem fór fram á Evrópumótaröðinni í Máritíus. Frittelli hafði betur gegn Indverjanum Arjun Atwal í bráðabana um sigur.

Að loknum 72 holum voru þeir Frittelli og Atwal jafnir á 16 höggum undir pari og því þurfti að fara í bráðabana. Á lokaholu mótsins hefði Atwal hins vegar getað tryggt sér sigur en pútt hans fyrir erni fór rétt framhjá holu. 

Í bráðabananum var 18. holan leikin aftur en hún er par 5 hola. Frittelli fékk fugl á meðan Atwal fékk par og því sigurinn í höfn hjá Suður-Afríkubúanum.

Frittelli hefur nú sigrað á tveimur mótum á Evrópumótaröðinni en hann öðlaðist keppnisrétt á mótaröðinni fyrir síðasta tímabil eftir gott ár á Áskorendamótaröðinni.

Romain Lanqasque frá Frakklandi endaði í þriðja sæti á 14 höggum undir pari.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is