Fresta þurfti leik í Singapúr

Ekki náði að ljúka við annan hring SMBC Singapore Open vegna veðurs. Stærstu nöfn mótsins eru án efa þeir Sergio Garcia og Louis Oosthuizen, en þeir voru báðir jafnir í efsta sæti eftir fyrsta hringinn. Þegar leik var frestað var Tælendingurinn Chapchai Nirat í forystu á samtals sjö höggum undir pari.

Nirat var einn af þeim náði að ljúka leik og lék hann annan hringinn á 64 höggum, eða sjö höggum undir pari. 

Fjórir kylfingar eru jafnir í öðru sæti á sex höggum undir pari, þar á meðal er Sergio Garcia. Garcia náði aðeins að ljúka við átta holur áður en vont veður skall á. Hann var á einu höggi undir pari þegar hann þurfti að hætta leik.

Oosthuizen náði að ljúka leik og kom í hús á 72 höggum, eða einu höggi yfir pari. Hann er því samtals á fjórum höggum undir pari.

Leikur hefst að nýju á morgun klukkan 7:40 að staðartíma.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.


Chapchai Nirat var í forystu þegar leik var frestað.