Fór upp um 173 sæti á milli vikna

Sigurvegari AT&T Pebble Beach Pro-Am mótsins, Ted Potter, Jr. hafði ekki sigrað á PGA móti í tæp sex ár þegar kom að móti helgarinnar.

Potter hóf keppni á PGA mótaröðinni árið 2012 og var þá nýliði. Seinna á því ári sigraði hann á sínu fyrsta móti þegar hann sigraði á Greenbrier Classic mótinu. Potter lék seinna á árinu í tveimur risamótum og tryggði sér keppnisrétt meðal þeirra bestu í tvö ár til viðbótar.

Tveimur árum seinna meiddist Potter hins vegar illa á ökkla sem gerði það að verkum að hann var frá í tæplega tvö ár. Það var í raun ekki fyrr en á þessu tímabili sem hann náði sér almennilega eftir þessi þrálátu meiðsli.

Potter fer upp um heil 173 sæti á nýjum heimslista og situr nú í 73. sæti listans. Fyrir mótið var hann í 246. sæti. Framundan eru stærstu mót ársins en með sigrinum tryggði hann sér þátttökurétt á Masters mótinu, Opna mótinu og PGA meistaramótinu og þá er hann með fullan keppnisrétt á PGA mótaröðinni til ársins 2020.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is