Fleetwood mun leika með Guardiola í Pro/Am móti

Englendingurinn Tommy Fleetwood hefur fengið knattspyrnustjórann Pep Guardiola með sér í Pro/Am mótið fyrir BMW PGA Championship sem fram fer í maí og er hluti af Evrópumótaröð karla.

Guardiola, sem þjálfar Manchester City í ensku úrvalsdeildinni, er ágætis kylfingur en þessi 47 ára gamli Spánverji er með 14 í forgjöf. Hann segist hlakka til að leika í mótinu.

„Ég hef heyrt frábæra hluti um BMW PGA Championship og ég hlakka til að spreyta mig í Pro/Am mótinu,“ sagði Guardiola. „Eftir að hafa unnið ensku úrvalsdeildina er þetta frábær leið til þess að ljúka góðu tímabili.

Ég veit að það eru nokkar íþróttastjörnur meðal keppenda og fyrrum fótboltamenn þannig að það verður mikil barátta. Vonandi verður golfið mitt nógu gott.“

Pro/Am mótið fyrir BMW mótið hefur vakið mikla athygli undanfarin ár. Í fyrra lék til að mynda Ryan Giggs með Rory McIlroy og þá hafa Gianfranco Zola, Andriy Shevchenko, Ian Wright, Jamie Redknapp og Theo Walcott allir tekið þátt í mótinu með misgóðum árangri. Mótið fer fram þann 23. maí og degi seinna hefst BMW mótið.

Sjá einnig:

Fleetwood lék með Guardiola þegar City varð meistari

Ísak Jasonarson
isak@vf.is