Fimm kylfingar sem er vert að fylgjast með á árinu á Evrópumótaröðinni (3)

Evrópumótaröðin fer af stað næstu helgi þegar SA Open mótið hefst. Nú þegar hafa verið leikin fjögur mót á þessu tímabili, en öll fjögur mótin voru leikin fyrir jól. 

Þar sem mótaröðin er að hefjast að nýju tók Evrópumótaröðin saman þá fimm kylfinga sem þeir telja að geti komið á óvart í Race to Dubai keppninni, sem er stigakeppni Evrópumótaraðarinnar. Kylfingur.is ætlar að kynna lesendum þessa fimm kylfinga og er nú komið að síðasta kylfingnum. Lesa má um fyrstu tvo í hérna og næstu tvo hérna.

1. Tapio Pulkkanen - 27 ára - Þjóðerni: Finnskur

Síðustu ár hafa verið ævintýri líkust hjá Pulkkanen. Árið 2015 endaði hann efstur á Nordic Golf mótaröðinni og vann sér þannig inn keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni. Tveimur árum síðar varð hann fyrsti Finninn til þess að verða stigameistari á þeirri mótaröð og má þakka sigri hans í Kasakstan fyrir það afrek, en mótið er eitt af stærri mótum ársins á mótaröðinni og fór það fram í september. 

Þrátt fyrir að aðeins fjögur mót séu búin á þessu tímabili á Evrópumótaröðinni er Pulkkanen nú þegar búinn að vera í baráttunni um sigur, en hann endaði jafn í þriðja sæti á Joburg Open mótinu.

Það eru tveir hlutir sem einkenna Finnan, en það er hatturinn sem hann spilar ávallt með og það að hann er mjög högglangur og mun eflaust berjast um það að verða högglengsti maður mótaraðarinnar.