Fimm kylfingar geta orðið stigameistarar á LPGA mótaröðinni

Fimm kylfingar berjast um milljón dollara bónusinn sem fylgir stigameistaratitlinum á LPGA mótaröðinni um helgina þegar lokamót tímabilsins, CME Tour Championship, fer fram.

Líkt og í FedEx keppninni geta allir fimm efstu kylfingar stigalistans fyrir lokamótið endað sem stigameistarar en til þess þurfa þeir að sigra.

Ariya Jutanugarn, sem var á dögunum valinn kylfingur ársins á mótaröðinni, verður að teljast sigurstranglegust en hún er búin að leika magnað golf á tímabilinu. Jutanugarn er í efsta sæti stigalistans fyrir mótið eftir þrjá sigra á tímabilinu.

Auk Jutanugarn geta þær Minjee Lee, Brooke M. Henderson, Nasa Hataoka og Sung Hyun Park allar endað sem stigameistarar með sigri.

72 kylfingar hefja leik í nótt í CME Tour Championship mótinu en Ólafía Þórunn Kristinsdóttir komst einmitt í þetta mót í fyrra. Áðurnefnd Ariya Jutangarn hefur titil að verja í mótinu.

Hér verður hægt að fylgjast með skori keppenda í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is