Evrópumótaröðin: Wade Ormsby sigraði eftir spennandi lokadag

Það var Ástralinn Wade Ormsby sem stóð uppi sem sigurvegari á UBS Hong Kong Open mótinu eftir spennandi lokadag. Fyrir daginn var S.S.P Chawrasia í forystu, en hann náði sér aldrei á strik í dag. Það nýtti Ormsby sér og endaði mótið einu höggi á undan næstu mönnum.

Ormsby lék lokahringinn á 69 höggum, eða tveimur höggum undir pari. Hann endaði því mótið á samtals 11 höggum undir pari. Fyrir lokaholuna var hann á þremur höggum undir pari á hringnum, en fékk skolla á lokaholunni. Hann gaf því Rafa Cabrera Bello tækifæri á að jafna við sig á 11 höggum undir pari. 

Cabrera Bello nýtti það sér hins vegar ekki og fékk líka skolla á síðustu holunni og endaði því á 10 höggum undir pari líkt og þrír aðrir. Jafnir honum urðu þeir Julian Suri, Paul Peterson og Alexander Björk.

Tommy Fleetwood, sigurvegari Race to Dubai á síðasta tímabili, endaði einn í sjötta sæti á samtals níu höggum undir pari.

Besta hring dagsins átti Miguel Ángel Jiménez, en hann kom í hús á 63 höggum, eða sjö höggum undir pari og endaði mótið jafn í sjöunda sæti á átta höggum undir pari.

Hérna má sjá lokastöðuna í mótinu.