Evrópumótaröðin: Stór nöfn úr leik í Ástralíu

Atvinnukylfingurinn Birgir Leifur Hafþórsson komst í dag í gegnum niðurskurðinn á Ástralska PGA meistaramótinu sem fer fram á Evrópumótaröðinni. Birgir Leifur var einn 75 kylfinga sem komust í gegnum niðurskurðinn en nokkur stór nöfn þurftu að sætta sig við að vera úr leik.

Stærsta nafnið er án efa heimamaðurinn Adam Scott. Masters sigurvegarinn náði sér ekki almennilega á strik á fyrstu tveimur hringjunum og lék samtals á einu höggi yfir pari. Scott hefur sigrað á fjölmörgum mótum á sínunm ferli en hann var í efsta sæti heimslistans árið 2014.

Aðrir fyrrum sigurvegarar á Evrópumótaröðinni sem komust ekki í gegnum niðurskurðinn voru til að mynda Robert Karlsson (11 sigrar á mótaröðinni), Robert Allenby (4), Michael Hoey (5) og Mikko Ilonen (5).

Birgir Leifur fer út klukkan 21:37 í kvöld á þriðja hringnum. Hann verður með þeim Damien Jordan og Alexander Knappe í holli.

Heimamennirnir Marc Leishman og Adam Bland eru í forystu í mótinu á 12 höggum undir pari.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is