Evrópumótaröðin: Rory McIlroy sjóðheitur

Það er ekki að sjá á Rory McIlroy að hann sé að snúa til baka á keppnisvöllinn eftir meiðsli sem höfðu plagað hann í nokkra mánuði. Norður-Írinn er í þriðja sæti fyrir lokahringinn á Abu Dhabi HSBC meistaramótinu eftir að hafa leikið þriðja hring mótsins á 7 höggum undir pari.

McIlroy hélt áfram góðu gengi á hring dagsins og fékk alls 8 fugla og einn skolla. Skollinn kom á 15. holu vallarins sem var jafnframt fyrsti skollinn hans í mótinu. McIlroy er samtals á 16 höggum undir pari í mótinu og er til alls líklegur á lokahringnum.

Belginn Thomas Pieters og Englendingurinn Ross Fisher deila efsta sætinu á 17 höggum undir pari, höggi á undan McIlroy.

Sigurvegari síðasta árs, Tommy Fleetwood, heldur áfram að leika vel. Hann er jafn Matt Fitzpatrick í fjórða sæti á 15 höggum undir pari fyrir lokahringinn.

Efsti kylfingur heimslistans, Dustin Johnson, lék á 4 höggum undir pari og er samtals á 12 höggum undir pari í mótinu.

Hér er hægt að sjá stöðuna.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is