Evrópumótaröðin: Jimenez í forystu í Sviss

Hinn 53 ára gamli Miguel Angel Jimenez stal senunni á fyrsta hringnum á Omega European Masters mótinu sem fór fram í dag á Evrópumótaröðinni. Jimenez er jafn í efsta sæti ásamt Englendingnum Tyrrell Hatton og Ástralanum Scott Hend.

Spánverjinn Jimenez lék á 64 höggum eða 6 höggum undir pari. Hann er nú þegar elsti sigurvegari í sögu Evrópumótaraðarinnar en hann sigraði á Opna spænska mótinu árið 2014.

Alls eru 6 kylfingar jafnir í fjórða sæti á 5 höggum undir pari. Það eru þeir Ryan Fox, Thongchai Jaidee, David Drysdale, Darren Fichardt, Duncan Stewart og Todd Sinnott.

Sigurvegari síðasta árs, Alex Noren, lék fyrsta hringinn á pari vallarins og er í 58. sæti.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is