Evrópumótaröðin: Grace sækir á Paisley

Suður-Afríkubúinn Branden Grace stal fyrirsögnunum í heimalandi sínu eftir frábæran þriðja hring á BMW SA Open mótinu sem fer fram á Evrópumótaröðinni. Grace vann sig upp í annað sæti á þriðja hringnum og er einungis einu höggi á eftir Chris Paisley sem er í forystu.

Grace fékk alls sjö fugla á hringnum og þar af 5 á síðustu 8 holum dagsins og lék á sex höggum undir pari. Hann er samtals á 14 höggum undir pari í mótinu.

Englendingurinn Chris Paisley hefur leitt alla þrjá dagana en hann leitar enn að sínum fyrsta sigri á mótaröð þeirra bestu. Paisley er á 15 höggum undir pari fyrir lokahringinn.

Adrien Saddier, Chase Koepka og Jacques Blaauw deila þriðja sætinu á 12 höggum undir pari. Saddier náði sér ekki almennilega á strik á þriðja hringnum og kom inn á höggi yfir pari eftir að hafa verið í forystu að tveimur hringjum loknum.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.


Chris Paisley.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is