Evrópumótaröðin: Fleetwood varði titilinn í Abu Dhabi

Englendingurinn Tommy Fleetwood stóð uppi sem sigurvegari á Abu Dhabi HSBC meistaramótinu sem lauk í dag á Evrópumótaröðinni í golfi. Fleetwood, sem sigraði á mótinu í fyrra, lék stórkostlegt golf á lokahringnum og tók fram úr efstu mönnum á endasprettinum.

Fleetwood lék lokahringinn á 7 höggum undir pari en hann var 6 undir á seinni níu holunum. Samtals lék hann hringina fjóra á 22 höggum undir pari og endaði að lokum tveimur höggum á undan Ross Fisher sem endaði annar.

Fisher þurfti örn á lokaholunni til að jafna við Fleetwood en varð að sætta sig við par.

Matt Fitzpatrick og Rory McIlroy enduðu jafnir í 3. sæti á 18 höggum undir pari. Flottur árangur hjá Rory sem lék í sínu fyrsta móti í yfir 100 daga vegna meiðsla.

Chris Paisley, sem sigraði á BMW SA Open í síðustu viku, endaði jafn Thomas Pieters í 5. sæti á 17 höggum undir pari.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is