Evrópumótaröðin: Fleetwood fór best af stað í Abu Dhabi


Englendingurinn Tommy Fleetwood fór best af stað í morgun þegar Abu Dhabi HSBC meistaramótið hófst á Evrópumótaröðinni. Stigameistari síðasta árs lék fyrsta hringinn á 6 höggum undir pari og er með eins höggs forystu á næstu menn en enn eiga margir eftir að ljúka leik á fyrsta degi.

Fleetwood, sem hefur titil að verja í mótinu, hóf leik á 10. teig í morgun og steig ekki feilspor á hringnum. Sex fuglar og tólf pör gerðu það að verkum að hann kom inn á 6 höggum undir pari eða 66 höggum.

Aðrir sem byrjuðu mótið vel voru til að mynda Rory McIlroy og Henrik Stenson sem eru á þremur og tveimur höggum undir pari. McIlroy, sem hefur ekki leikið keppnisgolf í nokkra mánuði, sýndi ekki marga veikleika á hringnum þar sem hann fékk þrjá fugla og tapaði ekki höggi.

Eins og fyrr segir eru fjölmargir kylfingar enn úti á velli og því getur staðan breyst með deginum. Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.


Rory McIlroy.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is