Evrópumótaröðin: Fitzpatrick hafði betur gegn Hend í bráðabana

Englendingurinn ungi, Matt Fitzpatrick, stóð uppi sem sigurvegari á Omega European Masters mótinu sem lauk í dag á Evrópumótaröðinni í golfi. Fitzpatrick hafði betur gegn Scott Hend í bráðabana um sigur í mótinu.

Eftir 72 holur voru þeir Hend og Fitzpatrick jafnir á 14 höggum undir pari. Fitzpatrick hafði leikið lokahringinn á 64 höggum og kom því inn í bráðabanann í miklu stuði.

Alls léku þeir þrjár holur í bráðabana en 18. holan var leikin í öll skiptin. Á þriðju holu bráðabanans fékk Hend skolla sem Fitzpatrick nýtti sér og fjórði sigur hans á Evrópumótaröðinni því staðreynd. Grátlegt fyrir Hend sem hefði getað tryggt sér sigur á 2. holu bráðabanans en stutt fuglapútt hans fór rétt framhjá holunni.

Tyrrell Hatton og Fabrizio Zanotti enduðu jafnir í þriðja sæti á 11 höggum undir pari.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is