Evrópumótaröðin fer aftur af stað á fimmtudaginn

Evrópumótaröð karla í golfi hefst aftur eftir stutta pásu á fimmtudaginn þegar BMW SA Open mótið fer fram. Sterkir kylfingar eru skráðir til leiks en Englendingurinn Graeme Storm hefur titil að verja.

Storm sigraði í fyrra eftir bráðabana gegn engum öðrum en Rory McIlroy. Storm lék eins og reynslubolti í bráðabananum en þetta var einungis annar sigur hans á mótaröð þeirra bestu.

McIlroy verður ekki með í mótinu í þetta skiptið en hann er enn í pásu frá keppnisgolfi. Hins vegar eru þeir Andy Sullivan, Ernie Els, Trevor Immelman, Charl Schwartzel og Retief Goosen allir skráðir til leiks um helgina og má búast við fínu móti.

Birgir Leifur Hafþórsson skráði sig ekki til leiks en hann hefði líklega ekki fengið keppnisrétt í mótinu.


Andy Sullivan.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is