Evrópumótaröðin: Bubba Watson leiðir í Kína

Bandaríkjamaðurinn Bubba Watson er með eins höggs forystu eftir fyrsta hringinn á Shenzhen International mótinu sem fram fer á Evrópumótaröðinni í Kína.

Watson lék fyrsta hringinn á 6 höggum undir pari (66) og er með högg í forystu á fimm kylfinga.

Watson fékk á hringnum fimm fugla, einn örn og einn skolla.

„Í hvert skipti sem maður leikur á undir 70 höggum er maður ánægður en allir kylfingar geta fundið eitthvað á hringnum sem hefði getað farið betur. Þetta var frábær dagur og góð byrjun á mótinu,“ sagði Watson eftir fyrsta hringinn.

Jafnir í öðru sæti eru þeir Haydn Porteous, Grégory Bourdy, Dean Burmester, Maximilian Kieffer og Thongchai Jaidee.

Sigurvegari síðasta árs, Soomin Lee, fór ekki vel af stað. Hann er á þremur höggum yfir pari eftir 16 holur á fyrsta hringnum en ekki náðu allir kylfingar að ljúka leik vegna myrkurs.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is