Evrópumótaröð karla: Van Rooyen með fjögurra högga forystu

Það er Suður-Afríkubúinn Erik Van Rooyen sem er með forystu eftir þrjá hringi á Dubai Duty Free Irish Open mótinu. Rooyen er með fjögurra högga forystu á næstu menn.

Hann átti einn besta hring dagsins er hann kom í hús á 66 höggum eða sex höggum undir pari. Allir fuglarnir hjá honum í dag komu á fyrri níu holunum en þeir voru sex talsins og lék hann því fyrri níu holurnar á 29 höggum. Síðari níu holurnar lék hann á parinu og er hann eftir daginn á samtals 14 höggum undir pari.

Jafnir í öðru sæti eru þeir Ryan Fox og Joakim Lagergren. Þeir eru báðir á 10 höggum undir pari eftir að hafa leikið á 70 og 69 höggum.

Lokahringur mótsins fer fram á morgun en stöðuna í mótinu má sjá hérna.