Evrópumótaröð karla: Úrslitin réðust í bráðabana

Lokahringurinn á Opna indverska mótinu fór fram á Indlandi nú í nótt. Eftir þrjá hringi voru tveir kylfingar jafnir á toppnum, þeir Shubankar Sharma og Matt Wallace. Sharma náði sér ekki á strik í nótt og lék hringinn á þremur höggum yfir pari. Wallace lék hins vegar á fjórum höggum undir pari og eftir síðasta hringinn var hann samtals á 11 höggum undir pari. Svo var einnig raunin hjá Andrew Johnston, eftir að hann lék hringinn á 6 höggum undir pari. 

Úrslitin þurfti því að knýja fram í bráðabana og var 18. holan leikin. Wallace sló langt dræv á meðan Johnston lagði upp. Johnston missti síðan pútt fyrir fugli og mátti Wallace því tvípútta eftir að hafa slegið gott annað högg inn á flöt, en holan er par 5 hola. Wallace náði fuglinum örugglega og tryggði sér þar með sigurinn.

Johnston endaði því í 2. sæti og í 3. sæti varð Bandaríkjamaðurinn Sihwan Kim. Hann lék hringinn í nótt á fjórum höggum undir pari og endaði á samtals 8 höggum undir pari. Þeir Johnston og Wallace voru því með talsvert forskot á næstu menn.

Hér má sjá lokastöðuna í mótinu.