Evrópumótaröð karla: Ryan Evans og Lucas Bjerregaard efstir

Fyrsti hringur á Rocco Forte Open mótinu fór fram á Ítalíu í dag en mótið er hluti af Evrópumótaröðinni. Það voru þeir Ryan Evans og Lucas Bjerregaard sem léku best allra í dag og komu í hús á 65 höggum, eða 6 höggum undir pari. 

Evans hóf leik á 11. holu í dag og lék fyrri 9 holurnar á tveimur höggum undir pari þar sem hann fékk tvo fugla og restin pör. Á síðari 9 holunum bætti hann svo um betur og lék þær á fjórum höggum undir pari. Hann fékk þar tvo fugla og svo örn á 9. holunni.

Lucas Bjerregaard lék líkt of Evans á sex höggum undir pari þar sem hann fékk 7 fugla, einn skolla og restin pör. Fimm kylfingar eru svo jafnir í 3. sæti á fjórum höggum undir pari. 

Birgir Leifur Hafþórsson er á meðal keppenda en hann lék hringinn í dag á einu höggi yfir pari og er jafn í 53. sæti. Nánar má lesa um hringinn hans hér.

Hér má sjá stöðuna í mótinu.