Evrópumótaröð karla: Robert Rock ekki tapað höggi í 36 holur og er efstur

Það er Englendingurinn Robert Rock sem er í forystu eftir tvo hringi á Opna skoska mótinu. Rock lék frábærlega í dag en hann kom í hús á 63 höggum og er tveimur höggum á undan næstu mönnum.

Á hringnum í dag fékk Rock sjö fugla og restina pör og var hann því á sjö höggum undir pari. Eftir tvo hringi er hann á 13 höggum undir pari en hann hefur fengið samtals 13 fugla og ekki tapað höggi í öllu mótinu.

Jens Dantorp og Tyrrell Hatton eru jafnir í öðru sæti á 11 höggum undir pari. Það eru svo þeir Rickie Fowler og Eddie Pepperell sem eru jafnir í fjórða sæti á 10 höggum undir pari.

Hring dagsins átti Hideto Tanihara en hann kom í hús á nýju vallarmeti eða 61 höggi. Fyrr um daginn hafði Connor Syme sett nýtt vallarmet, 62 högg.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.