Evrópumótaröð karla: Rahm byrjaði vel í titilvörninni

Fyrsti hringur Tour Championship mótsins á Evrópumótaröð karla fór fram í dag við góðar aðstæður í Dubai. Jordan Smith og Adrian Otaegui fóru best af stað í mótinu en Jon Rahm, sem sigraði á mótinu í fyrra, er í toppbaráttunni.

Smith og Otaegui léku báðir á 6 höggum undir pari og eru í efsta sæti. Spilamennska þeirra var þó ólík því Smith fékk tvo skolla, sex fugla og einn örn á hringnum á meðan Otaegui tapaði ekki höggi og fékk sex fugla.

Jon Rahm er í þriðja sæti ásamt Danny Willett á 5 höggum undir pari. Rahm lék á 19 höggum undir pari þegar hann fagnaði sigri í fyrra en þá varð Tommy Fleetwood stigameistari.

Í ár er stigameistarabaráttan milli Fleetwood og Molinari. Molinari byrjaði betur og lék á 4 höggum undir pari og er jafn í 5. sæti. Fleetwood lék á 3 höggum undir pari og er jafn í 10. sæti

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is