Evrópumótaröð karla: Marc Warren og Paul Dunne jafnir í efsta sæti

Fyrsti hringur á Opna spænska mótinu var leikinn á Spáni í dag, en mótið er hluti af Evrópumótaröð karla. Eftir daginn eru tveir kylfingar jafnir í efsta sæti á sex höggum undir pari en það eru þeir Marc Warren og Paul Dunne.

Báðir léku þeir fyrri 9 holurnar á einu höggi undir pari en settu svo í annan gír á seinni 9 holunum. Warren fékk þar fimm fugla og restin pör en Dunne fékk þrjá fugla og endaði svo hringinn með erni á 18. holunni. 

Hvorki meira né minna en 11 kylfingar eru jafnir í 3. sæti á fimm höggum undir pari og því þétt setið á toppnum. Það eru þeir Jason Norris, Jon Rahm, Jonathan Thomson, Julien Guerrier, Erik Van Rooyen, Matthias Schwab, Victor Pastor, Alexander Björk, Henric Sturehed, Callum Shinkwin og Aaron Rai.

Birgir Leifur Hafþórsson er á meðal keppenda og lék hann hringinn á fimm höggum yfir pari. Nánar má lesa um hringinn hans hér.

Hér má sjá stöðuna í mótinu.