Evrópumótaröð karla: Luiten sigraði á NBO Oman

Hollendingurinn Joost Luiten sigraði á móti helgarinnar á Evrópumótaröðinni, NBO Oman Open, sem lauk í dag á Al Mouj golfvellinum. Luiten spilaði hringina fjóra á 16 höggum undir pari og sigraði með tveggja högga mun.

Luiten var með forystu fyrir lokahringinn og læt hana aldrei af hendi þrátt fyrir fína spilamennsku hjá kylfingum á borð við Chris Wood, Alex Levy og Robert Rock.

Hollendingurinn fékk þrjá fugla á fyrstu fjórar holur dagsins og setti þar með tóninn. Eftir tvo skolla á holum 7 og 8 kom hann svo aftur til baka og fékk þrjá fugla á seinni níu holunum þegar mest á reyndi. Sigurinn um helgina var sá sjötti á ferlinum hjá Luiten á Evrópumótaröðinni.

Chris Wood endaði í öðru sæti á 14 höggum undir pari og Julien Guerrier í því þriðja á 13 höggum undir pari. Robert Rock var í toppbaráttunni í dag en fataðist flugið á síðustu þremur holunum sem hann lék á 3 höggum yfir pari. Hann endaði jafn Fabrizio Zanotti í 7. sæti.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is