Evrópumótaröð karla: Lagergren sigraði á Rocco Forte Open

Svíinn Joakim Lagergren stóð uppi sem sigurvegari á móti helgarinnar á Evrópumótaröð karla, Rocco Forte Open, eftir bráðabana. Sigur Lagergren er hans fyrsti á ferlinum á Evrópumótaröðinni.

Lagergren fór í bráðabana gegn Frakkanum Mike Lorenzo-Vera eftir að hafa leikið hringina fjóra á 16 höggum undir pari. Á fyrstu holu bráðabanans fékk Lagergren fugl á meðan Lorenzo-Vera fékk par og sigurinn í höfn.

Eins og áður hefur komið fram er þetta fyrsti sigur Lagergren á Evrópumótaröðinni en hann hafði áður sigrað á Áskorendamótaröðinni og þá komst hann í bráðabana á Commercial Bank Qatar Masters mótinu í fyrra. Lagergren er 26 ára gamall Svíi sem hóf atvinnumannaferil sinn á Nordic Golf mótaröðinni sem nokkrir íslenskir kylfingar hafa leikið á undanfarin ár.

Ástralinn Lucas Herbert átti hring dagsins og endaði höggi frá því að komast í bráðabanann. Herbert lék á 8 höggum undir pari í dag en hann fékk 9 fugla og einn skolla. Hann deildi þriðja sætinu ásamt Andy Sullivan.

Birgir Leifur Hafþórsson var meðal keppenda á móti helgarinnar en hann komst ekki í gegnum niðurskurðinn eftir tvo hringi.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is