Evrópumótaröð karla: Kylfingar vottuðu flugi 302 virðingu sína

Eins og hefur komið fram í öllum helstu fjölmiðlum varð flugslys 10. mars í Eþíópíu með þeim afleiðingum að 157 fórust. Flugvélin var á leið frá Addis Ababa í Eþíópíu til Nairobi í Keníu.

Mót vikunnar, sem hófst í dag, á Evrópumótaröð karla fer einmitt fram í Keníu og ríkir þar mikil sorg þar sem lang mestur hluti farþeganna, eða 32 talsins, voru frá Keníu. Klukkan 8:44 að staðartíma í morgun var leikur stöðvaður tímabundið til að minnast fórnarlamba slysins með einnar mínútu þögn.

Eins og sést á myndunum hér að neðan tók þetta mikið á suma kylfinga. Kylfingar leika einnig með svarta borða í samúðarskyni.