Evrópumótaröð karla: Garcia með eins höggs forystu

Spánverjinn Sergio Garcia er enn í forystu á Nedbank Challenge mótinu sem fer fram á Evrópumótaröð karla í Suður-Afríku eftir tvo hringi.

Garcia, sem fór hamförum á fyrsta keppnisdegi, lék annan hringinn á 1 höggi undir pari og náðu því næstu menn að minnka forskot hans niður í eitt högg.

Garcia er samtals á 9 höggum undir pari í mótinu en hann hefur nú leikið síðustu níu hringi undir pari á Evrópumótaröðinni.

Heimamaðurinn Louis Oosthuizen er í öðru sæti í mótinu á 8 höggum undir pari. Hann lék annan hring mótsins á 5 höggum undir pari og var í miklu stuði.

Mikko Korhonen er í þriðja sæti á 6 höggum undir pari, tveimur höggum á undan næstu mönnum.

Rory McIlroy lék annan hring mótsins á höggi undir pari og er samtals á höggi undir pari í 19. sæti.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is