Evrópumótaröð karla: Fleetwood valinn kylfingur júní mánaðar

Englendingurinn Tommy Fleetwood var á mánudaginn valinn kylfingur júní mánaðar á Evrópumótaröð karla eftir magnaða spilamennsku á Opna bandaríska mótinu sem fór fram á Shinnecock Hills vellinum.

Fleetwood lék eins og margir vita á 63 höggum á lokahringnum og endaði í öðru sæti. Hringurinn var jöfnun á lægsta hring sögunnar á Opna bandaríska.

Fleetwood hafði betur í kosningu um kylfing mánaðarins gegn Dananum Thorbjörn Olesen, Finnanum Mikko Korhonen og Englendingnum Matt Wallace en þeir sigruðu allir í mánuðinum. Olesen sigraði á Opna ítalska mótinu og endaði þar að auki í öðru sæti á BMW International Open. Korhonen sigraði á Shot Clock Masters og Wallace á BMW International Open.

Niðurstaða kosningarinnar:

1. Tommy Fleetwood: 41%
2. Thorbjörn Olesen: 28%
3. Mikko Korhonen: 23%
4. Matt Wallace: 8%

Ísak Jasonarson
isak@vf.is