Evrópumótaröð karla: Dunne með þriggja högga forystu

Írinn Paul Dunne er með þriggja högga forystu á næstu menn þegar Opna spænska meistaramótið er hálfnað á Evrópumótaröð karla í golfi.

Dunne hefur leikið fyrstu tvo hringina á samtals 13 höggum undir pari sem er þremur höggum betra en skor heimamannsins Nacho Elvira, Ástralans Brett Rumford og Englendingsins Callum Shinkwin. 

Dunne hefur á sínum stutta atvinnumannaferli sigrað á einu móti á Evrópumótaröðinni en þar áður vakti hann mikla athygli á Opna mótinu árið 2015 þegar hann var í forystu eftir þrjá hringi, þá sem áhugakylfingur.

Heimamaðurinn Jon Rahm er í toppbaráttunni í heimalandinu en hann er jafn Robert Rock, Henric Sturehed og Marc Warren í 5. sæti á 9 höggum undir pari.

Birgir Leifur Hafþórsson var meðal keppenda í mótinu en komst ekki í gegnum niðurskurðinn eftir tvo hringi. Nánar er hægt að lesa um það með því að smella hér.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.


Jon Rahm.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is