Evrópumótaröð karla: Birgir Leifur úr leik þrátt fyrir frábæran hring

Birgir Leifur Hafþórsson lék í dag frábært golf á öðrum degi Opna spænska meistaramótsins sem fer fram á Evrópumótaröð karla.

Birgir Leifur, sem hafði leikið fyrsta hringinn á 5 höggum yfir pari, gerði engin mistök á öðrum hringnum og kom inn á 67 höggum eða 5 höggum undir pari. Hann fékk alls fimm fugla og þrettán pör og var hringurinn einn sá besti í dag.

Samtals er hann því á parinu sem er því miður ekki nóg til þess að komast áfram þar sem niðurskurðurinn miðast núna við þá kylfinga sem eru á tveimur höggum undir pari og betra skori.


Skorkort Birgis í mótinu.

Alls eru leiknir fjórir hringir á Opna spænska meistaramótinu sem lýkur á sunnudaginn. Eftir hring dagsins verður skorið niður og komast þá um 70 efstu kylfingarnir áfram. Þetta var þriðja mót Birgis á Evrópumótaröðinni á tímabilinu en hann er með takmarkaðan þátttökurétt á mótaröðinni.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@√f.is