Evrópumótaröð karla: Birgir Leifur með á Valderrama

Atvinnukylfingurinn Birgir Leifur Hafþórsson komst inn á mót vikunnar á Evrópumótaröð karla, Andalucia Valderrama Masters. Gestgjafi mótsins er enginn annar en Sergio Garcia en hann hefur einmitt titil að verja.

Garcia er efsti maður heimslistans í mótinu í vikunni en auk hans eru kylfingar á borð við Shane Lowry, Joost Luiten, Lee Westwood og Padraig Harrington skráðir til leiks.

Birgir Leifur hefur komist inn á 11 mót á tímabilinu til þessa á Evrópumótaröðinni en hann er í 256. sæti á stigalistanum. Hann þarf helst að vinna mótið um helgina til þess að tryggja sér keppnisrétt á mótaröðinni á næsta ári en annars fer hann í úrtökumót í nóvember.

Birgir hefur leik klukkan 14:25 að staðartíma á fimmtudaginn. Hann leikur með þeim Ryan Evans og Zander Lombard fyrstu tvo dagana. Lombard lék einmitt með Haraldi Franklín Magnús á Opna mótinu í sumar.

Hér er hægt að sjá keppendahópinn á Valderrama Masters.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is