Evrópumótaröð karla: Birgir Leifur í holli með margföldum sigurvegurum

Birgir Leifur Hafþórsson hefur leik í dag á BMW International Open mótinu sem er hluti af Evrópumótaröð karla. Birgir Leifur er ekki í slæmum félagsskap en hann leikur með þeim Gregory Bourdy og Jeunghun Wang fyrstu tvo dagana.

Bourdy hefur sigrað fjórum sinnum á Evrópumótaröð karla en síðasti sigurinn hans kom árið 2013 á ISPS Handa Wales Open. Bourdy er búinn að vera með fullan þátttökurétt á Evrópumótaröðinni frá árinu 2004 og komst hæst upp í 75. sæti heimslistans.

Wang er töluvert yngri en hann er 22 ára gamall og hefur nú þegar sigrað á þremur mótum á þessari sterkustu mótaröð Evrópu. Wang sigraði á tveimur mótum árið 2016 og sigraði svo á Qatar Masters mótinu í fyrra. Eftir þann sigur komst Wang upp í 39. sæti heimslistans en hann situr í dag í 162. sæti.

Birgir, Bourdy og Wang hefja leik klukkan 14:20 að staðartíma í Þýskalandi í dag eða klukkan 12:20 að íslenskum tíma. Hér verður hægt að fylgjast með skori keppenda í beinni.


Jeunghun Wang.


Gregory Bourdy.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is