Evrópumót landsliða: Konurnar bættu sig um 18 högg

Íslenska kvennalandsliðið bætti sig um 18 högg á milli hringja á Evrópumóti landsliða sem fram fer í Austurríki. Liðið skipa þær Andrea Bergsdóttir, Anna Sólveig Snorradóttir, Berglind Björnsdóttir, Helga Kristín Einarsdóttir, Ragnhildur Kristinsdóttir og Saga Traustadóttir. 

Fyrsta hringinn lék íslenska liðið á samtals 386 höggum og var eftir daginn í 19. og neðsta sætinu. Þær léku aftur á móti töluvert betur í gær og komu í hús á 368 höggum.

Þær Andrea og Saga léku best af íslensku konunum en þær léku á 71 höggi eða einu höggi undir pari. Helga Kristín lék síðan á 74 höggum, Berglind og Ragnhildur léku báðar á 76 höggum og að lokum lék Anna Sólveig á 78 höggum.

Íslenska liðið er því í 18. sæti eftir höggleikinn og ljóst að þær leika í C-riðli með Tyrklandi og Slóveníu. Í dag leika íslensku stelpurnar á móti Tyrklandi og hefja þær leik klukkan 11 að staðartíma og má fylgjast með stöðunni í leiknum hérna.

Hérna má svo sjá stöðuna eftir höggleikinn.