Evrópmótaröð karla: Alexander Levy sigraði á Trophe Hassan II

Frakkinn Alexander Levy stóð uppi sem sigurvegari á móti helgarinnar á Evrópumótaröð karla, Trophee Hassan II, sem fór fram í Marokkó.

Levy lék hringina fjóra samtals á 8 höggum undir pari og sigraði með minnsta mun. Fyrir lokahringinn var Levy í öðru sæti, höggi á eftir Alvaro Quiros, sem hafði leitt mótið fyrstu þrjá hringina.

Quiros lék lokahringinn á pari vallarins sem dugði ekki til sigurs og varð hann að sætta sig við annað sætið.

Andrea Pavan, Joakim Lagergren, Alexander Björk og Mikko Ilonen enduðu jafnir í 3. sæti á 6 höggum undir pari. Pavan átti hring dagsins en hann lék á 66 höggum og fór upp um 19 sæti á lokahringnum.

Sigurinn á Trophee Hassan II er fimmti sigur Levy á Evrópumótaröðinni og hefur hann nú staðið uppi sem sigurvegari á að minnsta kosti einu móti þrjú ár í röð á mótaröð þeirra bestu.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is