EurAsia bikarinn fer fram um helgina

EurAsia bikarinn fer fram dagana 12.-14. janúar í Malasíu og er ljóst að flestir liðsmenn Evrópu muni reyna að sýna sitt rétta andlit í mótinu. Daninn Thomas Björn, sem er einnig fyrirliði Evrópu í Ryder bikarnum seinna á árinu, er fyrirliði liðsins og því dýrmætt fyrir kylfingana að sanna sig.

Tíu kylfingar spiluðu sig inn í liðið en Björn valdi tvo kylfinga aukalega í liðið. Tommy Fleetwood, Tyrrell Hatton, Ross Fisher, Matthew Fitzpatrick, Rafa Cabrera-Bello, Bernd Wiesberger, Paul Dunne, Thomas Pieters, Alex Noren og Henrik Stenson spiluðu sig allir inn í liðið með góðri spilamennsku undanfarið ár og í þann frábæra hóp bætast Alex Levy og Paul Casey sem val fyrirliða.

Indverjinn Arjun Atwal, sem hefur þrisvar sigrað á PGA mótaröðinni, verður fyrirliði úrvalsliðs Asíu. Hann er sannfærður um að lið hans sé nógu sterkt til að gera góða hluti í mótinu.

„Ég er stoltur af því að fá þetta hlutverk, að vera fyrirliði Asíu í svona sterku móti. Ég býst við því að stjórna sterku og sjálfsöruggu liði gegn Evrópu og mun gera mitt besta til að hvetja mína menn áfram.“

Ísak Jasonarson
isak@vf.is